Fimmtudaginn

28. september, 2000 - Myndlist

 

MYNDLIST - galleri@hlemmur.is, Þverholti 5

 

UNGVERSKAR RAPSÓDÍUR

 

LJÓSMYNDIR og MYND- BANDASKIPAN
ÞÓRA ÞÓRISDÓTTIR

Morgunblaðið/

Halldór B. Runólfsson

 

 

Skipan Þóru Þórisdóttur, með myndbandsskjá, handklæði og rauðvínsflöskum í aðalsal galleri@hlemmur.is, Þverholti 5.

ÞÓRA Þórisdóttir hefur oftar en einu sinni sett verk sín í goðsögulegt samhengi og laðað fram hina ævafornu hugmynd um listina sem helgiathöfn; rítúal eins og listin var áður en hún varð list í okkar vestrænu merkingu. Það sem meira er; þetta svipmót launhelga virðist fæðast og dafna fullkomlega eðlilega og áreynslulaust. Slátrun lambsins vakti upp sterk viðbrögð fyrir fáeinum árum og lá við að Þóru væri brigslað um ólöglegt og siðlaust dýraplagerí.

 

Nú er það víngarðurinn; ákall til jarðargróðans og tvírætt minnið um aldingarðinn og höggorminn en um leið frummóðurina sem Krítverjar túlkuðu sem gyðju - ef til vill jarðargyðjuna Gæu - sem leikur sér að snákum sem vefja sig um handleggi hennar. Þóra lætur upptökuvélina fylgjast með gjörningi þar sem hún fyllir ámu af ungversku Villány-

víni - ódýrara en að fylla ámuna af vatni - og baðar sig í veigunum.

 

Að því búnu tappaði Þóra víninu aftur á flöskurnar og var þá búin að setja óafturkræft mark sitt á framleiðsluna. Hið merkilega gerðist í Parti Galéría í borginni Pécs - borið fram eins og blaðsíða á ensku - í Suðvestur-Ungverjalandi að boðnar voru háar upphæðir í flöskurnar með baðvíni Þóru. Eitthvað af Villány-víninu virðist þó vera eftir því raðir af flöskum standa við hlið sjónvarpsskjásins og framan við baðhandklæðið á henginu sem vottur um þá athöfn þegar líkaminn blandast víninu og vínið líkamanum.

 

Í myndröð í fremri salnum er Paradísarminnið þar sem Eva talar við snákinn en gæti þó hæglega táknað jarðargyðjuna. Gegnt myndröðinni er annað myndband á skjá þar sem Þóra fellir sjálfa sig inn í ungverskt alþýðuumhverfi með því að íklæðast þeim fatnaði sem er einkennandi fyrir konur í Pécs. Með því að má burt skilin milli sín sem útlendings og borgarbúa hinnar suðurungversku borgar undirstrikar listakonan samkennd sína með hinum ókunnugu án tillits til uppruna síns eða þeirra. Enn má sjá tengslin við fornar arfsagnir - að þessu sinni um hinn ókunna sem boðar að ekkert verði sem fyrr - sem Þóra snýr upp í athöfn eða örlítinn sjálfsprottinn helgileik til dýrðar hinu óvænta og ófyrirséða þegar framtíðin verður nú en ekki bara þá og þegar.

 

Það er fengur að þessum ungversku rapsódíum Þóru Þórisdóttur sem sanna enn sem fyrr hæfileika hennar til að endurvekja forn minni án þess að leita út fyrir nútímann.