MYNDLIST - galleri@hlemmur.is

Inn í verkið

UMHVERFISVERK LIBIA PÉREZ DE SILES DE CASTRO & ÓLAFUR ÁRNI ÓLAFSSON

Til 2. mars. Opið fimmtudaga til sunnudaga frá kl. 14-18.

 

Inn í verkið - mynd

Morgunblaðið/Halldór B. Runólfsson

Frá opnun á umhverfisverki Libiu Pérez de Siles de Castro og Ólafs Árna Ólafssonar í galleríi@hlemmur.is, Þverholti 5.

 

SALARKYNNUM gallerís@hlemmur.is í Þverholti 5 hefur verið rækilega umturnað með umhverfisverki þeirra Libiu Pérez og Ólafs Árna, en bæði hafa unnið saman frá 1997. Libia er frá Málaga á Spáni en Ólafur er úr Hafnarfirði, en þau búa um þessar mundir í Rotterdam. Áður hafa þau Libia og Ólafur Árni nokkrum sinnum sýnt sameiginleg verk sín hér á landi. Er þá skemmst að minnast sýningar þeirrar sem þau efndu til í Straumi, menningarmiðstöðinni í Hafnarfirði.

Miðað við þá sýningu, sem var bæði ævintýraleg og merkilega samræmd - þótt í hverju horni væri að finna óvenjulegar samsetningar verka - er núverandi sýning í galleríi@hlemmur.is töluverð nýjung. Þótt ekki væri annað en andrúmsloftið sem þeim Libiu og Ólafi Árna tekst að skapa - nyrðra herbergið er alsett mold og stígum - yrði sýningin að teljast ákveðinn hápunktur í stuttum ferli þeirra.

Ef satt skal segja minnir heildin töluvert á umhverfislist í árdaga uppákomunnar, þegar Allan Kaprow, Jim Dine, Robert Whitman, Red Grooms og Claes Oldenburg voru að setja saman happening-verk sín, með ódýrum efniviði, flóknum og margræðum skiptingum atriða og mörgum ólíkum afkimum. Það er að vísu engin leikin uppákoma sem á sér stað í rými Libiu og Ólafs Árna. Gestir eru látnir sjá um að ganga þar um og ræða málin.

Galleríið við ofanverðan Hlemm er ekki stórt, en það er merkilegt hve vel þeim Libiu og Ólafi Árna tekst að nýta það skipulagslega séð. Gólf innra herbergisins er þakið leirkenndri mold og gestir verða að setja á fæturna spítalaplasthlífar áður en þeir ganga inn í salinn. Inni eru ýmis óvænt fyrirbæri á gólfi og veggjum líkt og listamennirnir vildu gera umhverfið lífrænna. Eftirtektarverðast eru ef til vill smálautir og syllur á veggjum, með litríku litadufti. Þessi atriði sýna betur en nokkru sinni fyrr næman skilning listamannanna á smáatriðum í miðri hringiðunni. Gluggunum er breytt í hrein, gegnumlýst málverk. Þar til gerð hægindi gefa gestum færi á að virða fyrir sér landslagið í næði.

Til mótvægis er fremra herbergið, eða forstofan, mun reglulegri, sett speglum á allar hliðar, auk safnkúpuls í lofti og á vegg. Þannig er gestum boðið að ganga inn í verk sem liggur á mörkum menningar og náttúru, um leið og þeir upplifa sig sem hluta og gerendur í margræðu og margslungnu umhverfi þar sem undur og ævintýri eru við hvert fótmál.

Halldór Björn Runólfsson