MYNDLIST - galleri@hlemmur.is
Óður til einmanaleikans
MYNDBAND & LJÓSMYNDIR BJÖRK GUÐNADÓTTIR
Til 26. maí. Opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 14-18.
Frá sýningu Bjarkar Guðnadóttur - Heilagar stundir.
SÝNING Bjarkar Guðnadóttur lætur lítið yfir sér, svo lítið reyndar að það er enginn vandi að skoða hana án þess að sjá nokkurn skapaðan hlut. Ef menn eru hins vegar nægilega forvitnir - innvígðir, eins og rótartungurnar kjósa fremur að kalla þá sem haldnir eru heilbrigðum áhuga, í von um að geta stimplað listir sem sérhagsmunamál fáeinna, helst stéttalega útvalinna - opnast fyrir þeim sýn á okkar ástkæra samfélag sem okkur skortir sjónarhorn til að átta okkur á að sé reynd mála.
Björk afhjúpar nefnilega með einkar sparsömum hætti einangrun manns frá manni í okkar ofureinkavædda nútímasamfélagi þar sem samskipti og boðskipti fara fram óbeint með gluggapósti, bæklingum og ruslpósti af hvers kyns toga. Það er í illa upplýstu anddyri fjölbýlishúsa sem óvænt stefnumót eiga sér helst stað milli íbúanna, á leið í og úr vinnu. Gallinn er bara sá að slík samskipti eru fullkomlega skilyrt af klukkunni og vinnutímanum. Í leiðinni er staldrað við pósthólfin og aðgætt hvað þar er að finna. En því miður er flestur póstur eins og fyrirmæli í endalausum píluleik. Rukkunarbréf senda okkur í bankann, skattskýrslan til skattstjórans og auglýsingapésarnir í stórmarkaðinn. Til þess er leikurinn gerður að hafa áhrif á daglegt líf okkar.
En til hvers er þá verið að leita logandi ljósi með stækkunargleri í rökkvuðu anddyrinu? Eina raunhæfa svarið virðist vera að Björk sé á höttunum eftir beinum mannlegum samskiptum, nokkru sem fer þverrandi í niðurnjörfuðu og ofurskipulögðu lífi okkar nútímamanna jafnvel þótt við búum nær hver öðrum en nokkru sinni fyrr í sögunni. Því gæti óvæntur glaðningur í formi kærkominnar sendingar í póstkassanum, eða óvæntra funda við aðra persónu af holdi og blóði rofið nauðhyggju ævintýrasnauðrar hversdagstilveru. Slíkur happafengur væri á við heilaga stund, boðun og endurlausn. Vegna þess hve lítið er um slíka félagslega könnun í íslenskri list verður að telja sýningu Bjarkar Guðnadóttur meðal þeirra athyglisverðustu í galleri@hlemmur.is á þessu ári.
Halldór Björn Runólfsson