Þriðjudaginn 24. desember, 2002 - Myndlist

MYNDLIST - Gallerí Hlemmur

Sérðu það sem ég sé

MYNDBAND OG TEXTAVERK, VIKTORÍA GUÐNADÓTTIR

Til 5. janúar. Gallerí Hlemmur er opið fimmtudaga til sunnudaga frá kl. 14-18.

 

Sérðu það sem ég sé - mynd

 

Sýning Viktoríu Guðnadóttur í Galleríi Hlemmi.

 

VIKTORÍA Guðnadóttir (1969) er myndlistarmenntuð í Danmörku og Hollandi, á sjö ára nám að baki. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga en þetta er fjórða einkasýning hennar, önnur hér á landi.

Hún sýnir nú tvö verk í gallerí Hlemmi, myndbandsverk og handmálaðan texta á vegg. Í innri sal gallerísins er mynd varpað á tvö tjöld andspænis hvort öðru, mynd sem þátttakandi í skrúðgöngu tekur af áhorfendum göngunnar. Þeir fylgjast forvitnir með því sem er að sjá, teygja sig og reigja til að sjá betur. Í galleríinu stendur áhorfandinn þarna mitt á milli, í sporum tökumannsins sem horft er á líkt og viðundur. Í fremra rýminu hefur Viktoría handmálað texta, þakið veggina með einfaldri síendurtekinni sögu um litla stúlku og ömmu hennar, um eilífa hringrás lífs og fjölskyldu. Myndbandið og textinn eru hvort um sig verk sem gætu allt eins verið sýnd ein og sér en saman gefa þau hvort öðru aukna dýpt.

Orð og mynd eiga sér langa sögu innan myndlistarinnar. Við eigum frábærlega myndlýst handrit frá fyrri öldum. Og enn í dag segja listamenn sögur og sýna myndir. Eftir að hreinræktunarstefna módernismans leið undir lok hafa alls kyns sögur og textar birst í myndlistinni. Eiginleikar myndbandsformsins bjóða einnig upp á frásögn þó oft sé án orða, myndir sem segja sögu. Myndlistaráhorfendur í dag eru því vonandi í auknum mæli tilbúnir til að gefa sér tíma, nema staðar, horfa á myndband, lesa sögu.

Af greinargóðri möppu sem Viktoría lætur liggja frammi, má sjá að hún hefur á undanförnum árum unnið nokkuð með myndbönd og ljósmyndir unnar í tölvu, einnig textaverk. List hennar byggist á einfaldri frásögn.

Viðfangsefni Viktoríu í myndbandinu Pride er áhorf - áhorfandinn horfir á áhorfendurna, sjónarspil samfélagsins í hnotskurn. Í bók sinni Les mots et les choses skrifaði Michel Foucault ítarlegan texta um sjónarspil myndlistarinnar út frá málverki Velazquez, las Meninas. Seinni tíma dæmi eru skrif höfunda eins og Guy Debord, Marshall McLuhan, Baudrillard...um sjónarspil samfélagsins. Hér á landi er skemmst að minnast verka til dæmis Arnout Mik. Myndband Viktoríu einskorðar sig ekki við myndlistarheiminn heldur fæst við samfélagið í heild. Það má að vísu ekki líta framhjá því að hún nefnir verkið eftir skrúðgöngunni, Gay Pride, en séð í víðara samhengi hittir það líka í mark, ekki síst hér á landi þar sem unglingar góna enn úr sér augun í Kringlunni sjái þeir svala útlendinga. Okkar einsleita samfélag veitir ekki mikið rými og óttinn við allt sem er öðruvísi er mikill, hvort sem það er myndlist sem fólki þykir nýstárleg þrátt fyrir að myndlistarmenn hafi unnið á svipaðan hátt áratugum saman, eða það að fólk bregður eitthvað út af vananum á einn eða annan hátt.

Viktoría setur verk sín vel fram á skýran hátt, myndbandið er einfalt en áhrifaríkt. Sama er að segja um söguna litlu sem er síendurtekin á veggnum, um hringrásina og fjölskylduböndin sem veita öryggi og ást en líka er ómögulegt að losna frá. Línuleg framganga skrúðgöngunnar og frásögnin í textanum, lífshlaupið sem vísað er til mynda fallegan samhljóm.

Verkin sýna hið almenna á yfirborðinu en undir niðri krauma persónulegar sögur sem áhorfandinn einn hefur aðgang að. Listakonan reynir ekki að fylla í eyðurnar. Líkt og segir í greinargóðum skrifum Debru Solomon í sýningarskrá veit hún að áhorfandinn gerir það sjálfur. Þar þarf enga sérfræðiþekkingu til, ekkert nema hjartað.

Ragna Sigurðardóttir


© Morgunblaðið, 2003