mbl.is       

Fimmtudaginn 23. janúar, 2003 - Myndlist

 

Vor í vetri

 

Óboðnir gestir Þuríðar Sigurðardóttur, sem sýnir sín verk í Galleríi Hlemmi, virðast sannarlega velkomnir að mati sýningargesta sé sala verka einhver mælikvarði á vinsældir - er gagnrýnandi skoðaði sýninguna voru aðeins tvö verk óseld, sem hlýtur að tala sínu máli.

Þuríður, líkt og Ásgeir Jón, hefur valið olíuliti sem sinn miðil og hefur hún fyllt galleríið af blómamyndum í yfirstærð. Allur á gróðurinn það sameiginlegt að tilheyra hinni íslensku flóru og vera, líkt og listakonan bendir á, gjarnan óvelkominn í ræktaða garða landsmanna. Í meðförum Þuríðar fá fíflarnir, fjólurnar og sóleyjarnar hins vegar uppreisn æru og má segja að myndir hennar séu eins konar óður til íslenskrar náttúru.

Nærmyndirnar af gróðrinum krefjast þess hins vegar ekki að vera teknar of alvarlega, því skærir, örlítið ýktir litir blómanna iða af lífi. Litadýrðin ásamt yfirstærðinni falla vel að poppuðu yfirbragði verkanna og tekst Þuríði víða vel að túlka blómadýrðina. Þannig njóta sterkgular sóleyjar, baldursbrár, bifukolla og fíflar sín vel í meðförum listakonunnar. Skarpur munur á dökkum grunni sem umlykur baldursbrárnar nær að kalla fram dýpt og mýkt bifukollunnar skilar sér vel í verki sem sker sig nokkuð frá öðrum verkum á sýningunni. Listakonan hefur þó nokkuð misgóð tök á viðfangsefnum sínum og nær ekki alls staðar að framkalla verk í sama styrkleika og í hér að ofan. Þannig skortir smára hennar skerpu og gleymméreina mýkt, auk þess sem nokkuð ber á að smámyndirnar búi ekki að krafti stærri verkanna. Blómamyndirnar eru þó engu að síður kærkominn vorboði sem virðist falla íslenskum sýningargestum vel í geð.

 

Anna Sigríður Einarsdóttir