Laugardaginn 22. febrúar, 2003 - Viðhorf

 

Eitthvað annað

 

Það er viðurkennt að framlög til menntamála, rannsókna og nýsköpunar hafa jákvæð áhrif og leiða m.a.s. til hagvaxtar! En hér eru atvinnuúrræðin öll í sömu átt - til framkvæmda. Vegaframkvæmda, byggingaframkvæmda og virkjanaframkvæmda.


 

Fleiri en ég eru orðnir þreyttir á ástandinu hér á landi undanfarin ár. Við viljum eitthvað annað en virkjanir, vegaframkvæmdir, vinnubrjálæði og gamaldags viðhorf t.d. í atvinnumálum.

Eitthvað annað er einmitt yfirskrift forvitnilegrar sýningar eða öllu heldur hugmyndasmiðju sem myndlistarmaðurinn Ósk Vilhjálmsdóttir stendur nú fyrir í Galleríi Hlemmi. Þar kemur fólk með hugmyndir til dæmis um hagvöxt eða orku. Sett hefur verið upp starfsumhverfi fyrir hugarflugið en hugmyndasmiðjan er opinn vettvangur fyrir alla þá sem vilja ræða og rannsaka möguleika lífsins í landinu og eins og fram kemur í umfjöllun um sýninguna: "Ósk leitar eftir hugmyndum frá gestum og gangandi um framtíðina, s.s. hvers konar þjóðfélag viljum við? Hvers konar land viljum við? Hvers konar framtíð? Hvers konar lýðræði? Hvers konar stjórn? Hvers konar stjórnleysi?" Listamaðurinn skapar þarna tengingu á milli samfélagsins og listarinnar og vill hafa áhrif á samfélagið.

Ósk hefur bent á að það hafa ekki allir áhuga á þessu peninga- og hagvaxtartali, fólk hafi fengið nóg og vilji breytingar. Í Silfri Egils á Skjá einum um síðustu helgi sagði Ósk að í einhverri umræðunni í hugmyndasmiðjunni hafi verið rætt um orðið hagvöxtur. Og það hafi verið gagnleg umræða.

Hér verður ekki rakið nánar hvað Ósk sagði í viðtalinu heldur dvalið aðeins við orðið. Hagvöxtur er ágætis orð sem þó getur verið frekar óskiljanlegt fyrir venjulegt fólk. Samkvæmt Íslenskri orðabók þýðir það "aukning þjóðarframleiðslu á mann, reiknuð á föstu verði". Allt vinnubrjálæðið skapar sem sagt hagvöxtinn. Síaukin neysla skapar hagvöxt þar sem við fjármögnum hana með meiri vinnu. Meiri vinna kostar meiri fjarvistir frá fjölskyldu. Þetta gengur allt út á gamla viðhorfið að vera duglegur að vinna og því meiri yfirvinnu, því betra. En góður hagur fólks og vellíðan þýðir ekki endilega meiri hagvöxt.

Það má líka segja að allt þetta tal um ríkt land, peninga, hagvöxt og virkjanir sé líka á einhverju öðru stigi en því sem venjulegt fólk getur samsamað sig við. Fjölskyldan verður undir í hagvaxtartalinu. Og eins og Ósk benti á: Nýtni hindrar hagvöxt. Við förum sem sagt frekar út í búð og kaupum nýjar buxur heldur en að gera við gatið sem kom á þær gömlu. Við kaupum okkur skyndibita af því við höfum ekki tíma til að vinna matinn sjálf fyrir vinnu.

Það er alþekkt í hagfræðinni að hagvöxtur reiknar ekki með vinnu innan heimilisins, og nýverið hefur verið bent á, m.a. í The Economist, að séu hagvaxtarútreikningar milli landa leiðréttir fyrir aldurssamsetningu þjóða og lengd vinnudagsins, þá eru Bandaríkjamenn ekki mikið framar Evrópubúum í hagvexti. Og sama má segja um samanburð Íslendinga við aðrar þjóðir, en við höfum löngum unnið mun lengri vinnuviku en nágrannar okkar, og þ.a.l. er hagvöxtur sem reiknaður er á mann, en ekki vinnustund, í raun að gefa ranga mynd af ástandinu, enda finnur fólk það þegar það hefur búið erlendis.

Hér er ríkjandi gamaldags viðhorf til atvinnumála og utanríkismála. Fyrir venjulegt barnafólk er stöðnun í þjóðfélaginu. Mikið er talað um framfarir hér á landi, ríkasta land heims, hamingjusamasta fólkið og sífellt tönnlast á því hversu miklar framfarir hafa orðið frá því á níunda áratugnum "þegar maður þurfti að fara til bankastjóra og fá lán, þegar verðbólga var hundrað prósent, þegar gengið var fellt æ ofan í æ... o.s.frv.". Vissulega hafa orðið miklar framfarir síðan þá. Þetta er liðin tíð og það er ekki endilega ríkisstjórnarflokkunum að þakka. Mikið af umbótunum í íslensku viðskiptalífi má rekja til samræmdra reglna frá ESB sem við erum skuldbundin til að taka upp, og margir hafa verið á móti lengi vel.

Milljarðarnir sex sem ríkisstjórnin er búin að lofa til uppbyggingar í atvinnumálum koma sér ágætlega fyrir landið en útspilið er samt svolítið fljótfærnislegt. Það er viðurkennt að framlög til menntamála, rannsókna og nýsköpunar hafa jákvæð áhrif og leiða m.a.s. til hagvaxtar! En hér eru atvinnuúrræðin öll í sömu átt - til framkvæmda. Vegaframkvæmda, byggingaframkvæmda og virkjanaframkvæmda. Störf skapast fyrir karla úti á landi. Um nauðsyn þessa eru ríkisstjórnarflokkarnir sammála og hafa í engu svarað gagnrýni á að meira skuli ekki notað af fénu til að byggja upp á höfuðborgarsvæðinu, í menntakerfinu eða í velferðarkerfinu.

Dálæti sitjandi ríkisstjórnar á virkjanaframkvæmdum er af sama meiði. Með þeim fá karlar á Austfjörðum meiri vinnu og orkan verður nýtt. Það þykir sem sagt óviðunandi að nýta ekki fyrirliggjandi orku, hvernig sem farið er með náttúruna. (Hugsið ykkur hvað við erum búin að tapa miklum hagvexti síðan um landnám, á

öllum ánum sem runnið hafa til sjávar - óvirkjaðar.) Við viljum eitthvað annað en virkjanir.

Hér er líka ríkjandi gamaldags viðhorf í utanríkismálum. Bæði hvað varðar Evrópusamstarf og hvað varðar framlag Íslands til þess að viðhalda friði í heiminum. Rödd Íslands má heyrast og hún þarf ekki endilega að taka undir með rödd Bandaríkjanna. Við viljum eitthvað annað en að ríkisstjórn Íslands segi já við stríði í Írak.

Tíðar skoðanakannanir undanfarið gefa til kynna að venjulegt fólk vill eitthvað annað en ríkjandi ástand.

Eftir Steingerði Ólafsdóttur steingerdur@mbl.is