MYNDLIST - galleri@hlemmur.is

Gullgerðarlist nútímans

 

BLÖNDUÐ TÆKNI HEIMIR BJÖRGÚLFSSON

Galleríið er opið fimmtudaga til sunnudaga frá 14-18. Sýningin er til 23. júní.

 

Morgunblaðið/Jim Smart

 

Frá sýningu Heimis Björgúlfssonar.

"ALLT sem glitrar er ekki illt" nefnist sýning Heimis Björgúlfssonar í galleri@hlemmur.is. Þetta er fyrsta einkasýning Heimis, en hann hefur verið í námi í Hollandi síðan 1997 og mun ljúka MFA-gráðu frá Sandberg Institute í Amsterdam á næsta ári.

 

Yfirskrift sýningarinnar veldur mér nokkrum vafa. Setningin er eins og staðhæfing og les ég því að "allt sem glitrar sé gott", gott sbr. "ekki illt". Ég hef samt á tilfinningunni að listamaðurinn ætli að segja okkur að "ekki sé allt illt sem glitrar". Ég kann þó að hafa rangt fyrir mér þar.

 

Stærsta verk sýningarinnar ber sama titil og yfirskrift hennar. Það er pýramídi gerður úr 2.400 tómum Egils Gull-dósum, en pýramídar, fuglar og veiðimennska eru helsta myndefnið á sýningunni. Gull-dósirnar leiða huga minn að gullgerðarlist á miðöldum þegar fræðimenn leituðust við að breyta ódýrum málmi í gull. Segja má að myndlistarmenn séu gullgerðarmenn nútímans. Þeir breyta kannski ekki ódýrum málmi í gull, en þeir breyta gildi hluta með því að setja þá í annað samhengi, líkt og Heimir gerir með tómar dósirnar. Það sem truflar mig við Gull-pýramídann er uppstoppaður hrafn sem situr á toppi hans og virðist vera að rífa í sig eina bjórdósina eins og hann hafi fangað bráð. Verkið verður því eins og nýstárleg uppstilling á náttúrugripasafni. Hrafninn hefur þó þýðingu innan myndmálsins. Hrafnar eru jú þekktir fyrir að safna glitrandi hlutum.

 

"Spádómsskór" Heimis eru mun betur heppnað myndlistarverk. Vaðstígvél eru fest með þéttifroðu á tvö barnasjóbretti og frauðplast. Létt efnið gefur möguleika á að nota skóna til vatnsgöngu. Verkið hefur því trúarlega tilvitnun, en með tilliti til annarra verka á sýningunni má líka tengja það veiðimennsku. Efni og hugmynd fara vel saman og verkið er opið fyrir túlkun. Áhugavert samspil er svo á milli skónna og ljósmyndar af vatnsfötum raðað í pýramída.

 

Á gólfinu við hliðina á spádómsskónum er sjónvarp sem sýnir myndbandsupptöku af Heimi og vinum hans á fuglaveiðum. Á hillu fyrir ofan sjónvarpið eru plastbrúsar merktir "Gull" sem eru ætlaðir fyrir spíra og á veggi gallerísins hefur listamaðurinn hengt upp teikningar með samskonar þema og þrívíð verkin á gólfinu. Í Hollandi er sterk hefð fyrir því að vinna skúlptúr eftir fljótunnum teikningum og spila þeim saman í sýningu. Teikning er þannig jafngild skúlptúr þótt hún sé íburðarminni. Þessi virðing fyrir fljótunnum teikningum eða rissi er ekki eins mikil á Íslandi og því ánægjulegt að sjá listamanninn taka þau áhrif með sér heim. Að öðru leyti er Heimir nokkuð í takt við áherslur yngstu kynslóðar myndlistarmanna hérlendis og mun tíminn leiða í ljós hvort hann verður einn þeirra sem skara fram úr í framtíðinni eða ekki.

 

Jón B.K. Ransu