Þriðjudaginn 11. febrúar, 2003 - Menning

 

Þóra Þórisdóttir hreppir Ullarvettlingana

ULLARVETTLINGARNIR 2003, viðurkenning sem Myndlistarakademía Íslands veitir frjóhuga listamanni, féllu Þóru Þórisdóttir myndlistarmanni og framkvæmdastjóra gallerí@hlemmur.is í skaut.

Þóra Þórisdóttir hreppir Ullarvettlingana - mynd
Morgunblaðið/Jón Svavarsson
 
Benedikt Gestsson afhendir Þóru Þórisdóttur Ullarvettlingana.
 

ULLARVETTLINGARNIR 2003, viðurkenning sem Myndlistarakademía Íslands veitir frjóhuga listamanni, féllu Þóru Þórisdóttir myndlistarmanni og framkvæmdastjóra gallerí@hlemmur.is í skaut.
"Um verk Þóru ætla ég svo sem ekki að hafa mörg orð, en minni á innsetningu hennar í gallerí@hlemmur.is á síðasta ári, sem hún kallaði "Rauða tímabilið" og var um margt einstök á sýningarvettvangi síðasta árs. Þar mátti skynja þá þjáningu sem listamaðurinn gengur í gegnum; sjálfan fæðingarveginn og listsköpin þrykkt á pappír með því blóði sem rennur til lífs eða dauða. Forn og ný samlíðan hvers skapandi listamanns," sagði Benedikt Gestsson, formaður MAÍ, í ávarpi við afhendinguna.
"Spurt hefur verið: Hvers vegna Ullarvettlingar? Því er til að svara að rök þau sem lögð eru til grundvallar veitingu Ullarvettlinganna eru sígild og eftirfarandi:
Í fyrsta lagi er það hráefnið sjálft sem fengið er af reifi sannanlegrar landnámsrollu, í annan stað vegna hins grípandi forms vettlinganna, í þriðja lagi vegna þeirrar vísunar sem ullarhnoð hefur til list- og handmennta á íslenskum baðstofuloftum allt til vorra daga, og síðast en ekki síst vegna þess að myndlistarmönnum á Íslandi hefur alltaf verið kalt. Blóðið úr listsköpum Þóru hefur hins vegar runnið til lífsins og lifandi listar, það er mér því sönn ánægja fyrir hönd Myndlistarakademíu Íslands að afhenda Þóru Þórisdóttur Ullarvettlingana árið 2003," sagði Benedikt.