MYNDLIST - gallerí@hlemmur.is. Þverholti 5
BLÖNDUÐ TÆKNI - HILDUR JÓNSDÓTTIR
Til 13. ágúst. Opið fimmtudaga til sunnudaga frá kl. 14-18.
|
Morgunblaðið/Halldór B. Runólfsson |
Hluti af skipan Hildar Jónsdóttur í gallerí@hlemmur.is. |
HILDUR Jónsdóttir hefur sett upp sýningu með myndbandi sem hún kallar Garður og steinar - Garten und Steine á þýsku - þar sem hún stendur á hvítum kjól í dúnmjúkri mosabreiðu - að öllum líkindum í Eldhrauni á Síðu - og dæmigerðu íslensku roki. Hún réttir fram stein í lófa sér og spyr áhorfendur hvar setja skuli hann niður svo hún geti fundið hann aftur.
Umhverfis skjáinn hefur Hildur komið fyrir töflum eða opnum skápum með litblýantsteikningum af garðinum sem í raun er endalaust flæði náttúrunnar sem við þekkjum svo vel þegar við yfirgefum byggð og hverfum á vit landsins. Sumpart íklæðist Hildur gyðjugervinu - manni verður hugsað til fjallkonunnar; móður náttúru og allra huldumeyjanna sem þjóðsögurnar segja að búi í ósnortnum hraunborgum og mosagrónum lautum - en í annan stað er sýning hennar áþekk kennslustund í umhverfisvernd; ákall gyðjunnar til áhorfandans um að virða náttúruna sem lifandi svið einstaklingsbundinna fyrirbæra.
Ef til vill munu einhverjir kveða upp þann dóm yfir Hildi að sýning hennar sé full af barnaskap. Henni ætti að vera í lófa lagið að finna steininn sinn aftur. Hún þarf ekki annað en líma á hann skyndepil og kalla hann svo upp með merkjanema. En Hildur er væntanlega að tala um hvern stein og hverja jurt, mosaþembu og hraunhvilft, sem einungis verða kunnugleg þeim sem þekkja svæðið eins og heimahaga sína.
Það sem er eftirtektarvert við sýningu Hildar er tilvísunin - vísvitandi eða ómeðvituð - til klassískra tíma; upplýsingaraldarinnar og bernsku rómantískrar náttúrudýrkunar með öllu því huldufólki og náttúruvættum sem átjánda öldin tók að draga fram úr alþýðlegum skúmaskotum. Ef til vill er það tilviljun ein að Hildur skyldi gera slíkt myndband í Þýskalandi - hún hefur stundað framhaldsnám í Hamborg á undanförnum árum - og þó; hefði yrkisefnið komið til hernnar með jafnsjálfsögðum hætti ef hún hefði verið stödd annars staðar? Án þess að skrifa of mikið á kostnað dvalarlands Hildar þá má segja að andi sýningar hennar komi merkilega heim og saman við þýska menningarsýn í nútíð og fortíð. Það er auðvitað ekki til vansa því fyllingin í verkum Hildar verður mun meiri fyrir vikið. Ef til vill erum við aftur komin til áfangastaðar í listþróuninni þar sem við getum kallast á við fortíðina án þess að hljóma of hjáróma. Með innileik sínum og einlægri nálgun tekst Hildi að hitta á vænlega bylgjulengd, ríka af óplægðum möguleikum.
Halldór Björn Runólfsson