Gagnrýni Morgunblaðið 17. janúar 2004
Rósa Sigrún Jónsdóttir hefur ekki starfað lengi að list sinni en verk hennar á undanförnum árum hafa vakið athygli fyrir fegurð og frumleika. Hun hefur unnið með íslenskt handverk á fallegan og frumlegan hátt og er greinilega í miklu sambandi við náttúruna. Verkið sem Rósa sýnir núna í Gallerí Hlemmi er sannkallaður svanasöngur gallerísins, fallegt, sterkt og eftirminnilegt í einfeldni sinni. Rósa er afar hæfileikaríkur listamaður og henni tekst að birta okkur hinum sterka og fallega sýn á hversdagslega hluti. Eyrnapinnavefnaðurinn er áhrifamikið verk sem situr í manni. Það minnir á smíð náttúrunnar eins og kóngulóarvef eða býflugnabú en vísar um leið til neyslusamfélagsins og fegurðar- og hreinlætisdýrkunar þeirrar sem við búum við.
Þráhyggjan sem birtist í gerð og stærð vefsins er óhugnanleg en um leið er vefurinn fallegur ásýndum. Myndbandið með útsaumnum í fingurgómana stækkar verkið og gerir það enn áleitnara og gott samræmi er í samansaumuðum bómullarendum eyrnapinnanna og fingurgómum listakonunnar á skjánum. Manni hlýtur að verða hugsað til sérkennilegra líkamsgjörninga Marinu Abramovic frá sjöunda og áttunda áratugnum, í einum var nál stungið í fingur og í öðrum man ég ekki betur en hún hafi myndast við að sauma saman á sér varirnar. Í einu verki greiðir hún hár sitt af offorsi og nefnir það "Art must be beautiful, Artist must be beautiful" og deilir þar á fegurðarkröfur samfélagsins líkt og Rósa. En listakonan Rósa býr yfir ríkri kímni og léttleika meðfram þráhyggjunni, léttleika sem verk Abramovic skorti enda eru nú aðrir tímar.
Það er sjaldgæft að sjá listamann sem vinnur á svona einfaldan, persónulegan og sterkan hátt úr hversdagslegum hlutum og full ástæða til að bíða spenntur eftir næstu verkum listakonunnar. Ekki veit ég hver framtíðaráform hennar eru en víst er að starf hennar er ekki auðvelt í því listaumhverfi sem við búum við hér.
Ragna Sigurðardóttir