Laugardaginn 9. nóvember, 2002 - Myndlist

MYNDLIST - Gallerí Hlemmur

 

Vindlareykjandi álfastúlkur á Hlemmi

BLÖNDUÐ TÆKNI, ERLA S. HARALDSDÓTTIR

Til 10. nóv. Sýningin er opin miðvikudaga til sunnudaga frá kl. 14-18.

 

 

Þetta er Ísland. Hún er Íslendingur. Hún er álfur. Hún er heilbrigð.  Hún reykir vindla.  Hún er köld Hún er alein.

 

ERLA S. Haraldsdóttir er fædd 1967, menntuð í Gautaborg, San Fransisco og Stokkhólmi og hefur verið virk í list sinni í um sex ár. Á þeim tíma hefur hún haldið fimm einkasýningar og þetta er sú sjötta, auk þess að taka þátt í fjölda samsýninga, hérlendis og erlendis. Ljósmyndaverk sem hún vann í samvinnu við Bo Melin vöktu nokkra athygli hér þegar þau voru sýnd í Galleríi Hlemmi 2001.

 

Erla hefur unnið ágæta möppu sem gefur góða innsýn í verk hennar undanfarin sex ár og þegar hún er skoðuð er ljóst að verk hennar fjalla gjarnan um skynjun og mörk raunveruleika og ímyndunar. Þannig leika ljósmyndaverk hennar og Bo Melin sér með daglegt umhverfi okkar með því að breyta því á tiltölulega hógværan hátt svo efi vaknar hjá áhorfanda um það hvað er raunverulegt og hvað ekki. Svipað hefur Erla gert upp á eigin spýtur í ljósmyndum af íslenskri náttúru þar sem framandlegur fugl flýgur við Skógafoss, geimför takast á loft uppi á öræfum o.fl.

Nú er Erla líka á náttúruslóðum í verki sínu Það sem þú í raun sást, en aðalverk sýningarinnar er myndbandsverk af öldugangi á Mýrdalssandi þar sem einnig bregður fyrir stúlku á ferli. Myndbandið er fallegt, öldugangur er jafnan seiðandi og hraðinn dregur ekki úr þeim áhrifum. Stúlkan sem birtist og hverfur jafnsnöggt bætir annarri vídd við verkið, maður er í raun ekki viss um hvað maður sá og ekki sá.

 

Myndbandinu er varpað á vegg. Þegar ég sá það var það illa sýnilegt vegna sólar, sem truflaði mjög. Án efa er það sterkara á skýjuðum degi. Nú eru svo margir að vinna myndbandsverk í dag. Kannski verður það til þess að það er stundum notað án tillits til sérstakra eiginleika þess. Sjónrænir möguleikar miðilsins fara oft fyrir ofan garð og neðan og myndbönd eru oftar en ekki eins konar hreyfanleg ljósmyndavél, sem hefur fyrst og fremst heimildagildi. Í þessu tilfelli hefði verkið verið mun sterkara með ákveðnari framsetningu. Myndbönd listamanna eins og til dæmis Marijke van Warmerdam sýna til dæmis vel hvers myndbandið er megnugt á sinn einfaldasta hátt. Mér fannst líka tilvísun til virkjana óþörf í verkinu og þrengja túlkunarmöguleika áhorfanda um of.

 

Erla hefur svo beðið tvo listamenn um að vinna verk út frá myndbandinu, Joshua Trees segir í orðum hvað honum finnst hann sjá út úr kyrrmynd af myndbandinu og Arngrímur Borgþórsson, ungur graffitilistamaður, gerir verk á einn vegg gallerísins, byggt á sömu kyrrmynd. Texti Trees verður til þess að maður veltir fyrir sér hvað það er sem skapar ímynd Íslands út á við - hvort Sykurmolarnir og síðan Björk eigi þar í raun svona stóran hlut að máli en í texta sínum nefnir Trees bæði álfa og vindla sem virkar óneitanlega klisjukennt, en álfastúlkan Björk söng jú um vindlareykingar í Sykurmolalaginu góða fyrir löngu.

 

Þessi samvinnuhugmynd finnst mér áhugaverðasti hluti sýningarinnar og nokkuð sem er spennandi að vinna með - jafnvel þó að útkoman sé í þessu tilfelli ekkert sérstaklega áhugaverð. Sovéski listamaðurinn Ilya Kabakov hefur til dæmis notað þennan möguleika á skemmtilegan hátt með því að innlima viðbrögð áhorfenda við verkunum í sýningar sínar, þannig hefur komið vel fram í verkum hans mismunur á viðbrögðum áhorfenda í vestri og austri, auk gráthlægilegra viðbragða almennings við list sem fáir botnuðu í. Samvinna er ofarlega á baugi í dag, bæði listamanna á milli sem og milli listamanna og almennings og það er spennandi að fylgjast með hvernig hún þróast frekar á næstu árum.

 

Þrátt fyrir annmarka framsetningar og þá staðreynd að viðbótin sem vannst með samvinnunni er ekkert sérlega spennandi, búa verk Erlu yfir áhugaverðum þáttum, skilin milli raunveruleika og ímyndunar eru heillandi og samvinnuhugmyndin frjó. Og vonandi að sólin haldi sig bak við ský á næstu dögum.

 

Ragna Sigurðardóttir