Fimmtudaginn 5. desember, 2002 - Myndlist

MYNDLIST - Gallerí Hlemmur

Dýpt hégómans

BLÖNDUÐ TÆKNI, HRAFNHILDUR ARNARDÓTTIR

Til 8. desember, sýningin er opin miðvikudaga til sunnudaga frá kl. 14-18.

 

Dýpt hégómans - mynd

 

Ljósmynd á sýningu Hrafnhildar Arnardóttur í Gallerí Hlemmi.

 

HRAFNHILDUR Arnardóttir er útskrifuð úr málaradeild MHÍ 1993 og hélt síðan til framhaldsnáms við School of Visual Arts MFA, New York þar sem hún er nú búsett og starfar. Hún hefur tekið þátt í mörgum samsýningum og uppákomum en þetta er þriðja einkasýning hennar. Viðfangsefni hennar og efniviður hafa verið af ýmsum toga, 1998 sýndi hún teikningar af ætt sinni, Laugarvatnsættinni, í Nýlistasafninu, nú er hégóminn viðfangsefni hennar.

Fáfengileikinn hefur birst í ýmsum myndum í listasögunni. Páfuglar voru tákn fáfengileikans á málverkum fyrri alda og á sautjándu öld í Hollandi voru málverk sem kölluð voru vanitas sérstaklega vinsæl. Það voru kyrralífsmyndir þar sem hver hlutur átti að sýna hverfulleika mannlegrar tilveru, á þeim voru hauskúpur ómissandi þáttur. Nú hefur Hrafnhildur innréttað Gallerí Hlemm sem Helgidóm hégóma síns, samkvæmt titli sýningarinnar. Þar hefur hún teppalagt gólf og veggi og sýnir þrjár ljósmyndir auk teppalagðra sýningarstalla og verðlaunagrips. Ljósmyndirnar sýna loðna ísbjarnafætur, hárlausa fótleggi og buxnaklæddan afturenda og búa yfir skemmtilegum húmor. Í lítilli sýningarskrá er að finna sérstakan og skemmtilegan texta sem bætir heilmiklu við verk Hrafnhildar. Hann er skrifaður af Agga Egga og Sigurdarson, frekari grein á þeim sem skrifa hann eru ekki gerð, hvernig sem á því stendur því þegar textinn er lesinn á sýningunni verður hann sterkur og áhrifamikill þáttur innan hennar. Hann á þónokkurn þátt í því að skapa óræðan samruna ytra neyslusamfélags og innri veraldar sem er sýningunni mjög til góða. Í textanum er minnst á fyrirbærið ákafa hégómaröskun, eða Intense Vanity Disorder. Þessi svonefnda hégómaröskun er hnyttilega til fundin hjá Hrafnhildi, án efa þjáumst við öll af henni, nafnið er afar trúverðugt. Upphafsmaður patafýsiskra fyrirbæra, þ.e. heimatilbúinna útskýringa á ýmsum vísindalegum fyrirbærum, Alfred Jarry, hefði verið ánægður með þetta.

Innsetning Hrafnhildar er að nokkru leyti í anda hugmynda efnishyggjutímabils í listum síðustu aldar, níunda áratugarins þegar listamenn eins og Jeff Koons voru stjörnur í listheiminum en skúlptúrar hans af lagskonunni Kikkólínu voru vissulega hámark hégómleikans. Hjá Hrafnhildi er þó einnig að finna aðra hugsun sem sker sig frá þannig verkum. Samspil ljósmyndanna og myndefnið búa yfir þáttum sem ekki liggja í augum uppi við fyrstu sýn. Það er eitthvað dularfullt við þessa fótleggi á hvolfi í gryfjunni, tóm sætin umhverfis skapa andrúmsloft sem minnir á atriði úr mynd eftir David Lynch, sömuleiðis eru ísbjarnarfæturnir uppstoppuðu skringilega dapurlegir. Þessi óræði þáttur sem myndirnar búa yfir gera innsetninguna áhugaverða og opna hana fyrir fleiri túlkunarmöguleikum en þeim sem titill sýningarinnar gefur til kynna. Strangflatarrassinn má einnig skoða á fleiri en einn hátt, til dæmis með tilliti til þess hversu rassinn er oft mikilvægur þáttur í sjálfsmynd ungra kvenna, eins minna köflurnar á strangflatarmálverk.

Þessi svonefnda ákafa hégómaröskun er frjór jarðvegur fyrir fleiri verk í þessum dúr og þarna gæti Hrafnhildur hafa fundið verkum sínum ákveðinn farveg, sem vert er að fylgja eftir.

Ragna Sigurðardóttir


© Morgunblaðið, 2003