MYNDLIST - galleri@hlemmur.is
Með bernskuna að baki
BLÖNDUÐ TÆKNI UNNAR ÖRN AUÐARSON
Til 15. júlí. Opið fimmtudaga til sunnudaga frá kl. 14 - 18.
Morgunblaðið/Halldór B. Runólfsson
Frá sýningu Unnars Arnar Auðarsonar í galleri@hlemmur.is, Þverholti 5.
UNNAR Örn Auðarson hefur tekið þátt í nokkrum samsýningum þar sem hann hefur sýnt góð tilþrif og verið til alls vís, en einkasýningar hans eru ekki margar. Sú sem nú er í galleri@hlemmur er hressileg og sýnir bestu hliðar listamannsins sem og veikleika, en þeir eru hverfandi miðað við styrkinn.
Miðpunktur sýningarinnar, og jafnframt stærsta verkið, er mikill hlaði settur saman úr stólum og borðum sem dúkað er yfir með hálfmöttu plastteppi svo að líkist einna helst snjóhúsi. Hægt er að ganga inn í það öðrum megin og sjá þar meðal annars flúrljós og uppblásna blöðru, í formi fólksbifreiðar. Hinum megin er sjónvarpsskjár felldur inn í hýsið með myndbandi sem sýnir einmana knattspyrnumann leika gylltum fótbolta eftir mannlausum götum Þingholtsins, alla leið niður að Tjörn.
Við vegginn andspænis hýsinu hlykkjast skúlptúr niður á gólfið samsettur úr tugum súkkulaðihúðaðra kleinuhringja. Rétt utar, við gluggann, standa svo tvö misstór fiskabúr, eitt ofan á öðru, með nokkrum villuráfandi gobifiskum.
Af titli sýningarinnar - Fullvaxta - má gefa sér að verkin fjalli um stökkið frá unglingsskeiði til fullorðinsára. Einmana knattspyrnumaður stendur þá eftir og finnur ekki lengur neinn til að að leika við. Gullknötturinn á boðskortinu er orðinn loftlaus og samfallinn. Fiskarnir í búrinu eru afskiptir og kleinuhringirnir hlaðast upp. Allt er breytt og söknuðurinn ríkir einn í yfirgefnu byrginu.
Þótt viðtal listamannsins við Karlottu Blöndal á heimasíðu gallerísins segi minna en ekki neitt og drepi inntakinu á dreif verður varla horft á þetta ágæta verk öðruvísi en sem ljúfsára upprifjun hins einmana fullorðna á ævintýragnótt æskuáranna. En burtséð frá öllu inntaki er veikleiki framsetningarinnar fólginn í vannýttum möguleikum. Unnar hefði hæglega getað brugðið upp töfrabirtu innan úr tjaldhýsi sínu eða keyrt upp fegurð fiskabúranna. Í staðinn er það kleinuhringjalengjan ein sem býr yfir nægilegum töfrum til að soga að sér athyglina. Samt sem áður glittir víða í skipulagshæfileika listamannsins.
Halldór Björn Runólfsson