Á veggnum 14. október - 5. nóvember
Á vegg í skrifstofurými sýnir Egill Sæbjörnsson. Egill hefur fengist við ljósmyndun, tölvutengda myndlist, performansa og innsetningar á undaförnum árum en hann útskrifaðist úr fjöltæknideild MHÍ (nú LÍ) vorið 1997. Hann býr nú og starfar í Þýskalandi auk þess að vera virkur þátttakandi í myndlistarlífi Reykjavíkur. Sýndar verða ljósmyndir úr seríu sem nefnist Heimabúdda og er frá árinu 1998.
Í texta frá Agli segir: "Stúlkan á stóran púða sem henni finnst gott að sitja á þegar hún horfir á sjónvarpið. Henni líkar vel við þennan púða. Ég vildi ná þeirri tilfinningu að líða vel, að eiga heimili, að eiga sér griðastað, hvort sem það er í hlutveruleikanum eða í huga manns. Eins og fugl býr sér til hreiður. Stundum gleymi ég að hirða um sjálfan mig, gæta að eigin tilfinningum og þá líður mér eins og ég sé búinn að tapa öllu. Vegna þess að ég hef ekki vökvað litlu plönturnar í bakgarðinum."
Verkið hefur ekkert með búddisma að gera. það fjallar um heilræna velferð og vellíðan.
Uppfært 10.10.2000