Stafnmynd
 
Laugardaginn 13. janúar klukkan 17 00 opnar Valgerður Guðlaugsdóttir
einkasýningu sína, Stafnmynd, í sal gallerí@hlemmur.is að Þverholti 5, Rvk.
Er þetta hennar fimmta einkasýning.  Valgerður stundaði nám við
Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Academy of Fine Arts í Helsinki.
 
Sýningin er saga í ljósmyndum af ferðalagi listamannsins með sjálfsmynd
sína í formi stafnlíkneskis.  Ferðalagið hófst í sumar sem leið í Reykjavík
og sýna myndirnar listamanninn með stafnlíkneskið á bakinu á leið sinni
á sýningu í Safnasafninu á Svalbarðsströnd. 
Nú hefur verið lagt upp í annað ferðalag.  Að þessu sinni frá Seljahverfi að
Hlemmi.  Að þessu sinni var ákveðið að ferðast í bíl.  Meðal annars má sjá
á myndunum listamanninn rogast með sjálfsmynd sína út í bílinn, þar sem
hún er spennt niður með bílbelti og henni ekið að galleri@hlemmur.is .
Þar er hún hengd upp og höfð til sýnis fram að 4. febrúar næstkomandi.
 
Samtal
 
Sjálfsmynd:  Æ, þú hefðir getað skafið málinguna af síðunni á mér.  Ekki
varstu nú að vanda þig við málingavinnunna, pússaðir mig ekki nægilega
á milli laga.
Listamaður:  Ég hélt að ég hefði útbúið þig með holrúm í hausnum svo þú
vigtaðir minna.  Hvernig í fjáranum fékkst þú málið?
Sjálfsmynd:  Vertu ekki að fást um það, ég lifi sjálfstæðu lífi.
Listamaður:  Ég reiknaði nú aldrei með því að þú gætir farið að tala þínu máli.
Sjálfsmynd:  Það er nú eins gott að ég hef fleiri hliðar en þá sem þú sást
um að útbúa.
Listamaður:  Nei, nú er mér allri lokið, ertu að rífa kjaft við mig tréhausinn þinn.
Ef ég hefði valið úrvals efnivið í þig, gæti ég frekar trúað því að þú hefðir
einhverja sál, en þú ert aðeins úr iðnaðarefni sem erfitt er að bera virðingu fyrir.
Sjálfsmynd:  Hver er nú að rífa kjaft?  Þú gerir þér ekki fulla grein fyrir hlutverki
mínu.  Ég er gerð til þess að fólk annað hvort dáist að mér eða taki ekki eftir
mér, allt eftir því hvernig liggur á því þá stundina.  Án mín ert þú ekki neitt.  Ég
er með báðar hendur réttar fram og lófana upp til þess að halda uppi heimi
þínum.  Ég snerti við fólki og í höndum mínum hvíla hugsanir þess.  Ég get
þegar því er að skipta breitt lífi fólks.  Jafnvel þó ég hvíli á gólfinu í kjallaranum
og safni riki er ég traust stoð.  Ég stend alltaf minn vörð um það eitt að vera til. 
Og ég er til fyrir fólkið, til að vekja hjá því nýjar hugmyndir og kveikja nýja drauma. 
Án minna líka væri veröldin aðeins hjóm.  Ekkert væri til nema það sem væri í
rökréttu samhengi við hinar ýtrustu nauðsynjar mannverunnar til að lifa af.
Ég held á fjöreggi mannsins hinni skapandi hugsun sem er eins og spretti út
úr engu.  Líkt og heimurinn varð til í einni stórri sprengingu þannig verða mínir
líkar til.
Listamaður:  Það veður aldeilis á þér.  Ég get nú sagt þér að þú varst fyrst
til sem snagi.  Mér var boðið að taka þátt í sýningu þar sem allir áttu að sýna
snaga.  Síðan ákvað ég að útbúa aðra útgáfu af þér, þar sem þú værir öll
fyrirferðameiri og þyngri í alla staði.  Síðast en ekki síst þá vegur þú meira
peningalega séð í núverandi mynd.