Mánudagsmorgun einn varð ég að fara
eitthvað. Um kl. tíu var myrkur úti (ekki myrkur, heldur kolniðamyrkur). Það var
óþægilegur vindstrekkingur og snjókoma eða rigning. Eða eitthvað mitt þar á
milli. Það var hræðilegt. En dæmigert, þar sem þetta var í janúar. Eftir að hafa
gengið að því er virtist í marga klukkutíma sá ég eitthvað. Eitthvað öðruvísi,
eitthvað sem ekki átti heima þar sem það var. Það var eins og óboðinn gestur,
frábrugðið umhverfinu. Já, algerlega framandi. Í gegnum glugga sá ég hvítt
herbergi, uppljómað, já og blóm, lifandi og litrík og stór. Um leið áttaði ég
mig á því að ég vildi búa þarna. Ég ákvað að stefnumótið mitt var ekki svo
mikilvæg þrátt fyrir allt - og fór inn.
Og hér var ég. Dagar og vikur liðu. Stundum komu gestir, þótt ég efist um að
þeir hafi verið að heimsækja mig. Raunar virtust þeir alls ekki sjá mig. Þeir
komu líkt og ég hafði gert til að skoða blómin og fóru svo aftur. Það var gaman
að fylgjast með þessu fólki. Sumir fóru í skyndi þar sem þeir virtust ekki
sáttir við það sem þeir sáu. Þetta vakti forvitni mína. Eftir fáeina daga heyrði
ég einn þeirra segja að þetta væri þegar á allt væri litið fremur hvrsdagslegt:
"Hvað er nýtt við blóm sem máluð eru með olíu á striga?" Mér brá í brún. Ég
hafði ekki hugleitt þetta á þessum nótum. Ég hugsaði með hryllingi um allar
"blómamyndirnar" og "uppstillingarnar" sem ég hafði séð um æfina og alltaf
fundist svo leiðinlegar. Hvað hafði eiginlega gerst þennan mánudag? Hafði ég
verið svona lágt niðri að ég tók ekki ftir að þetta var gildra? Ég var lömuð.
Hvað hafði ég gert? Hafði ég búið með miðlungs uppstillimyndum allan þennan
tíma? Mörgum klukkutímum síðar ákvað ég að ég yrði að vita meira. Þessi eina
athugasemd mætti ekki setja mig úr jafnvægi. Ég skoðaði blómin aftur. Vissulega
voru þau stór, reyndar gríðarstór. Hvaða blóm voru þetta? Ég
hafði ekki hugleitt það. Ég þekkti aðeins rósir og túlipana og blómin sem maður
kaupir í búðinni í tilefni afmælisdaga vina sinna. Þessi blóm voru greinilega
ekki af þeirri tegund. En kunnugleg. Ég hafði séð þau oft og mörgum sinnum utan
þessa herbergis. Næstu daga byrjaði ég að fylgjast betur með gestunum.
Einhverjir þeirra hlutu að þekkja blómin sem við vorum að skoða. Ég fylgdist
nánar með fólkinu sem staldraði lengur við. Ég hafði ekki fyrr veitt þeim mikla
athygli þar sem ég hélt að það væri sama sinnis og ég. En ég uppgötvaði að svo
var ekki. Fólkinu sem líkaði við myndirnar kærði sig ekki endilega að segja
mikið um þær. Margir sögðu einungis "en frábært" og "fallegt", "sjáiði hvað þær
eru fallegar" , sem gerði mig aftur áhyggjufulla. Að síðustu heyrði ég einn
nefna dálítið sem gerði mér bylt við. Öll blómin voru illgresi. Þau voru raunar
illgesi sem fólk tekur úr görðunum sínum á sumrin til þess að geta sett niður
aðrar jurtir, líklega rósir og túlípana o.s.frv. Ég var svolítið undrandi. Ef
þetta var illgresi, hvers vegna sagði fólkið þá "frábært" og "fallegt"? Um hvað
snérist þetta? Þegar hér var komið sögu sá ég næstum eftir því að hafa komið
hingað. Tíminn leið og ég gleymdi mér í hugsunum um allt sem ég hafði heyrt og
upplifað síðan ég kom hingað. Þessar myndir voru raunar forvitnilegar. Allt
virtist reyndar "vitlaust" við þær. Þær sýndu blóm. Ekki einu sinni "alvöru"
blóm heldur illgresi! Samt voru þau falleg, sumum fannst þau of falleg,
tilgerðarleg. Þau voru sýnd á þeim tíma sem bauð ekki uppá neina samkeppni,
þegar allt umhverfis þau var hreinlega ljótt. Þau voru ótrúlega venjuleg á
striganun sínum, máluð með olíu og samt svo áleitin, svo mótsagnarkennd í öllum
sínum hversdagsleik. Ég áttaði mig á því að þetta var ástæðan fyrir því að ég
kom og settist hér að. Það var á þessari stundu sem við bundumst vináttuböndum.
Tíminn leið og einn daginn voru öll málverkin farin. Það var
mánudagsmorgunn, klukkan rétt gengin í ellefu og tími til kominn að láta sig
hverfa.