Það hefur alltaf heillað mig í list Steingríms Eyfjörð hve löngum hann dvelur við félags-sálfræðilegt viðfangsefni af þjóðlegum og alþýðlegum toga. Þekkt tilvik af villibörnum - börnum fóstruðum af dýrum - svo sem Victor frá Aveyron, undir lok 18. aldar, sem François Truffaut gerði heimsþekktan í sinni ógleymanlegu “l´Enfant sauvage", og Kaspar Hauser frá Nürnberg, sem varð ódauðlegur í meðförum Werner Herzog, í ámóta nærfærnu meistaraverki, eru besti inngangurinn sem hugsast getur að hinum undarlega heimi dýrslegrar mannfræði.
En í stað þess að láta staðar numið við svo þekkt tilfelli byggir Steingrímur á enn skringilegri dæmum um fyrirbærið, eða þar sem börn eru alin upp af fuglum, eða í hænsnakofum. Frá fæðingu og til tíu ára aldurs bjó portúgalska stúlkan Isabel Quaresma í hænsnabúi þar sem hún komst af á brauðbitum sem fleygt var í hænsnin. Móðir hennar var geðfötluð vinnukona í sveit. Þegar henni var bjargað árið 1980, af manni sem vann á spítala og færð á sjúkrahús í Lissabon gat hún ekki gengið, né var hún vön að búa innan fjögurra veggja. Hún át með höndunum, baðaði út höndum og gaf frá sér hljóð eins og kjúklingur. Væntanlega af næringarskorti þá var hún með lítið höfuð á dvergvöxnum búk og annað augað var hulið vagli.
Það eru ófáar frásagnir af villibörnum í íslenskum þjóðsögum, einkum tengdar skepnum sem fólki fannst líkjast mönnum og taldi menn í álögum, svo sem hvítabjörnum og selum. En það eru einnig allmargar frásagnir af börnum sem skipt var af álfum og karlar sem var umbreytt í tröll af skessum ofan af öræfum landsins. Í öllum slíkum þjóðsögum má finna félags-sálræna þætti sem bíða þess að verða ráðnir. Steingrímur Eyfjörð er einn örfárra sem þorir að takast á við slík alþýðufræði og sagnahefð - sem ristir svo djúpt í samfélagslegri vitund okkar - og umbreyta í samtímalegan skáldskap sem býr yfir dulinni sálfræðilegri þýðingu.
Halldór Björn Runólfsson.