Úr sýningarskrá sýningarinnar Sogið Gallerí Hlemmi júlí 2002

 Rabbi Akiba (in Roman captivity) to his favourite pupil Simon ben Yochai :

“My son, more than the calf wishes to suck does the cow yearn to suckle.”

 Rabbíninn Akiba (í rómönsku helsi) sagði eitt sinn við uppáhaldsnemanda sinn Simon ben Yochai. ·„Sonur sæll, löngun kálfsins í spenann er mikil en löngun kýrinnar til að næra hann er enn meiri.“ 

Við sem höfum okkur til gamans stúderað Kabbalafræði skiljum hverju Rabbíninn var að miðla til nemanda síns, þ.e. við skiljum myndlíkinguna og getum tileinkað okkur dýpt hennar. Gyðingar hafa gjarnan verið lunknir í myndlíkingunum og er þessi ein af merkari perlum gyðingdómsins. Við skiljum að Akiba er að reyna að kenna munaðarleysingjanum Simon ben Youchai sitthvað um móðureðlið sem er flestum mannlegum/dýrslegum hvötum sterkara. Sjálfur fékk Simon ekki að vera í faðmi móður sinnar eins og við hin því hún dó í átökum fæðingarinnar. Hvað þá að hann fengi einhverja hæfileika með móðurmjólkinni og má því segja að flestir hans mannkostir hafi orðið til við getnað. Að mati Akiba er sjálfsbjargarviðleitnin hjóm eitt við hliðina á móðureðlinu, en honum var ekkert mannlegt óviðkomandi. Þeir félagarnir þurftu góðan skammt af sjálfsbjargarviðleitni til að eiga í sig og á í dýflissum rómverja og höfðu eitt ófáum stundum í að fílósófera um fyrirbærið. Við megum þó ekki gleyma að að Akiba var að tala í líkingarmáli sem er svo galopið fyrir hinum ýmsustu túlkunum að enn þann dag í dag deila fræðimenn af gyðingakyni um við hvað hann átti. Margir hafa lent á villigötum sem hafa sökkt sér í spekúlasjónir um móðureðlið með öllum þeim takmörkunum sem því fylgir. Þó má ekki yfirgefa móðurina án þess að nefna Freudíska túlkun á kennisetningum Rabbínans. Samkvæmt Freud er Akiba fyrstur fræðimanna til að benda á að því fylgir ákveðin kynferðisleg nautn fyrir móðirina að vera sogin af hvítvoðungi sínum. Uppáhalds nemandi Freuds Jung að nafni fór ofan í kjölinn á málinu og tengdi fyrirbærið við Ödipusarduldina sem Freud gerði heimsfræga. Hver kannast ekki við nautnasvip konu með barn á brjósti. Við sem erum kristinnar trúar eigum okkur svipaða setningu, nema hvað hún torræðir ekki málin með því að blanda saman móðureðli og kynferði við kærleiksríkan boðskapinn. Ég er að sjálfsögðu að tala um orð frelsarans: sælla er að gefa en þiggja. 

En hvað vakir fyrir Magnúsi að gera tilvitnunina að yfirskrift listsýningar þeirrar er nú er hægt að berja augum á Gallerí Hlemmi. Ekki er að sjá að hann nýti sér hin fornu fræði sem kennd eru við Kabbala, til þess eru táknmyndir sýningarinnar of veikburða. Freudísk túlkun myndi gera lítið úr mætti móður jarðar og föður himins, og þeirri kröftugu kvöt þeirra beggja að geta af sér nýtt líf í mannana verkum t.d. dagblöðum.

Og þó Magnús hafi bergt kristindóminn með móðurmjólkinni og að glöggir listunnendur gætu hæglega rifjað upp túlkun Tómasar frá Aquines á sköpunarsögunni er hæpið að túlka verkið út frá þeim forsendum, því Magnús hefur ítrekað hafnað skólaspekinni með öllum hennar kreddum...  getur ekki einmitt verið að í verkinu felist gagnrýni á afdönkuðum kennisetningum Skólaspekinnar, Kabbalafræðanna og Freudismans. Verk Magnúsar er hlaðið túlkunarmöguleikum ekki síður en lexía Rabbínans. Er það ekki tilgangur listamannsins að opna flóðgáttir sögu mannsandans með öllum hennar afkimum og skógarferðum barna sinna tíma. Hver er þá afstaða barns okkar tíma? Mun það verða hætt og spottað fyrir auðmjúka afstöðu sína til mannskepnunar. Verður verkleg og bjartsýn afstaða listamannsins ”Allt er hey í harðindum” gleymskuni að bráð. Mun daður hans við Mystisismann fara fyrir ofan garð og neðan hjá listunnendum framtíðarinnar. Hvað framtíðin ber í skauti sér er ómögulegt að segja en hvað varðar listunnnendur nútímans, er eins víst að tenging þeirra við forna frægð heimssögunar hafi verið slitin úr samhengi, þ.e. sjónvarpsmenning ljósvakamiðlana hefur skorið á naflastreng mannsandans. Samt tekst Magnúsi að koma jafnvel forföllnum sjónvarpsglápara í opna skjöldu með lúmskri fléttu á táknhelgun gosbrunnsins og gróðurs jarðar, í þessu tilviki hina fögru plöntu af ertublómaætt með sín hjóllaga, skiptu blöð og skærlitu blóm í klasa, Lupinus, sléttuúlfur plönturíkisins. Gosbrunnurinn er eitt af mikilvægustu menningartáknum okkar tíma þó að hann megi muna fífil sinn fegurri, sbr. Gianlorenzo Bernini, Franzesco della Monte Rossa og Marcel Duchamp. Af nýlegum tilhneigingum til  gosbrunnagerðar má nefna Frissu Rúríar í Laugardalnum og Bláan kubb Ara Páls á Expo 2000 sem mun seint líða þeim úr minni er hann sáu „live”. Gosbrunnar Magnúsar hafa alltaf haft sérstöðu (innan síns geira) fyrir uppurðarlítil hlutverk innan innsetningarinnar/samfélagsins og frekar en nokkuð annað staðið sem skynheilagt ígildi listarinnar í því vestræna samfélagi sem er okkur Íslendingum í blóð borið. Á samsýningunni The Igloo has Landed, sem undirritaður sá í Frankfurt 1999 og ári síðar í Hannover, sýndi Magnús feiki fallegan gosbrunn sem hann nefndi Diplómasía. Á gólfi gallerísins mátti sjá bala fullan af bjór, en uppúr balanum stóð hjárænuleg en þó tignarleg buna. Flestir Þjóðverjar sem undirritaður talaði við voru heillaðir af auðmýkt listamannsins gagnvart efnivið sínum og þeim friðsama nið sem sem honum fylgdi. Þeir sem ekki komust til Hannover til að sjá íslenska fegurð Diplómasíunnar gátu í sárabætur séð ári seinna hina kraftmiklu innsetningu Stormur á Gallerí Hlemmi. Sú sýning var ekki bara ógleymanleg undirrituðum heldur komst hún á síður erlendra fagtímarita fyrir dirfsku t.d. NU, Sculpture og Bo Bedre.

En hvað er það sem listamaðurinn vill tjá okkur með sinni nýjustu afurð, Sogið? Er það einangrun listannsins á láði og legi? Eru það hin heftu tjáskipti úðans þar sem bunan nær engri stefnu og frussast í litrófi regnbogans yfir land og þjóð? Eða er það hið heilaga samband hins innra við hið ytra sem hér hefur fangað hug listamannsins? Eru Morgunblaðsstaflarnir þá tákngervingar spegilmyndar heimsþorpsins sem fjölmiðlar reyna eftir fremsta megni að fegra í þeirri veiku von að maðurinn sé í raun og veru „góður“? Magnús hefur um árabil unnið með þann efnivið sem á hverjum morgni fellur inn um bréfalúgur okkar sem mikilvægasti hluti morgunverðarins.

Nær skynjun listamannsins dýpra en performance morgunverðarins, þar sem hann situr útí horni og þuklar og brýtur saman þær sömu forsendur og við hin álítum lýðræðislegar upplýsingar og menningarlega samantekt vestræns samfélags í fararbroddi? Hlutverk listamannsins er ekki að túlka heldur ekki síður að innbyrða og ná á þann hátt hreinu og tæru sambandi við við lífið sjálft.

 

Agnar Eggertsson a.k.n. Aggi Egga blaðamaður