Holan mín

 

Þetta er alveg eins og þegar ég fór í magaspeglun.

Það er samt rosalega margt búið að gerast síðan.

Þetta er holan mín. Hún er í laginu eins og mér leið þá.

Ég hef ekki hugmynd um hvernig allt þetta dót komst hingað. En það skiptir heldur ekki máli úr þessu. Það er heldur ekki hægt að liggja á leyndamálunum sínum endalaust.

Þetta er kannski ekki gullkistan mín en hérna er gróðrastían þar sem verkin mín verða til.

Ég skammast mín samt alltaf aðeins þegar ég kíki ofan í klósettið áður en ég sturta niður. Það er bara þannig. Hvort sem ég hef  eitthvað til að skammast mín fyrir eða ekki.

En núna sýni ég þér alla vegana hvað er að gerjast inni í mér. Þarna lengst undir hausnum á mér sem er einmitt nokkurn veginn á sama stað og hlutirnir koma sér fyrir í kringum mig án þess að vera eitthvað að ritskoða þá eitthvað sérstaklega

Ég verð auðvitað stundum reiður eins og allir. Og núna er ég sem sagt búinn að taka til hendinni í holunni minni. Án þess að plana neitt sérstaklega hvernig það kæmi út. Mig langaði líka að sjá hvað gerðist þegar maður byrjar að haga sér eins og veðrið og lætur allt flakka. Þetta er ekkert heimilisofbeldi. Ég var algerlega einn þegar ég gerði þetta. Það meiddist enginn á meðan á þessu stóð.

Það sem þú sérð hérna er spegilmynd. Hvernig maður með íslenska kennitölu eins og ég lítur út á þessu herrans ári 2002.

Ef maður horfir nógu lengi er jafnvel hægt að sjá glitta í sjálfan sig á sumum stöðum. Það skiptir ekki máli úr þessu.

Þetta er afsteypa af tilfinningunum mínum. Það sem þú sérð hérna inni eru hlutirnir sem mér hefur ekki enn tekist að losa mig við en nenni ekki að vera lengur með í felum. Ég er einfaldlega búinn að endurbyggja það sem gerðist þegar ég sleppti mér núna um daginn inni í holunni minni. Maður verður að sleppa. Ég flutti síðan allt heila klabbið hingað upp eftir. Ein allsherjar hreingerning.

Þetta er ekki uppkast eða nein uppköst. Mér líður ágætlega í maganum núna. Það er mjög mikilvægt. Ég vona samt að það sé ekki lykt af þessu. Það var alls ekki pælingin.

Ég elska ykkur.