ALLT SEM GLITRAR ER EKKI ILLT/ALL THAT GLITTERS ISN´T EVIL
Fjöllistamaðurinn
Heimir er hálfgert undrabarn. Ekki bara hvað varðar kúnst eyrans
(eyrnakonfekt) heldur og ekki síður einnig kúnst augans (höggmyndir, málverk,
o.s.frv.).
Ekki má þó
gleyma hversu sterkur hann er í því að nýta sér kosti og eðli beggja
heima þegar sá gállinn er á honum, eða ef þær aðstæður koma upp að
hann þurfi sitt lítið af hverju úr hvorum heimi fyrir sig. En fjöllistamaðurinn
Heimir er ekki bara hæfileikaríkur fjöllistamaður heldur einnig
veraldarvanur heimsmaður, sem á heimangengt í hvaða landi heimsþorpsins sem
er. Ég er því ekkert undrandi að þetta afsprengi (barn) alþjóðavæðingarinnar
skuli leita sér fanga í skúmaskotum fornra og nýrra menningarafkima með þekkingarþorsta
fagurkerans að vopni, því Heimir er sífellt opinn fyrir því að færa það
sem við í dag köllum list, feti framar, að því sem á morgun verður þekkt
sem list okkar tíma. Það skyldi því enginn ætla að það sé einhver dans
á rósum að ferðast um eðli tímans með öllum hans duttlungum og tímaskekkjum
og jafnvel mótað hann að sínu skapi líkt og leirkerasmiður sem situr við
borð sem snýst. Handverksmaður að starfi – skífuþeytir að leik.
Listunnandinn gæti
haldið að Heimir hefði dvalið langdvölum í Egyptalandi þegar hann sér
hans nýjasta stykki í fyrsta sinn. Maður er eins og tekinn með valdi suður
að bökkum Nílar á fljótabát. Kafteinninn hrópar “engar áhyggjur, við
stoppum til að fylla okkur af gulli í hverri höfn”. Eða erum við e.t.v.
stödd í heimahögum Mayaindíána suður í Mexíkó, eða jafnvel á slóðum
Hrafna-Flóka austur á fjörðum og það sem ég, í fávísi minni, taldi
vera píramída er í raun fagurt fjall og á toppi þess trónir annarhvor þeirra
bræðra Huginn eða Muninn spúandi gulli yfir sína þakklátu þjóð,
sem á hrauni byggði bú.
Niður við
þjóðveginn
sjá má
hinn,
sá hefur orðið
fyrir voðaskoti
líkt og
barn í Palestínu á CNN
aftur og
aftur.
Þessi
konungur spörfuglana er allur
en hinn er
allur á iði
itchy
trigger finger.
Aggi Egga, blaðamaður