HITABYLGJUR

Andardráttur venjulegrar manneskju er yfirleitt 37 gráður. Að anda og tala er samt ekki það sama. Það er hægt að anda án þess að tala en það er mjög erfitt að tala og anda ekki um leið. Andardrátturinn er hins vegar sjaldan í sama takti og hjartslátturinn. Nema stundum. Þá er líka allt eins og það á að vera. Flest höfum við samt enga stjórn á þessu öllu saman. Á ljósmyndinni sem hangir á einum veggnum í Gallerí Hlemmi virðist Guðrún Benónýsdóttir hins vegar vera að gera þetta allt á sama tíma. Maður heyrir meira að segja taktinn í röddinni hennar án þess að leggja við eyrun. Það er alveg nóg að leyfa augunum að hvíla á ljósmyndinni. En við nánari hlustun er þetta ekki röddin hennar Guðrúnar sem hljómar í huganum. Ekki frekar en stellingin sem hún er búin að fela sig innan í. Þessi staða er óneitanlega mjög kunnugleg. Hún er reyndar nákvæmlega sú sama og franskur tískuhönnuður setti hana Grace okkar Jones í þarna um árið.
Við gleymum henni auðvitað aldrei.
Húðliturinn á þeim stöllum er heldur ekki sá sami frekar en hinir litirnir á ljósmyndinni. Það eina sem þær eiga sameiginlegt er glampinn á húðinni. Mött húðin þeirra er smurð með sólarolíu enda virðist þeim báðum vera mjög heitt.
Til að æra óstöðugan er þessi stelling mjög lík sólstafnum svokallaða sem stundum er kallaður hakakross. En það er allt önnur saga. Og loftið verður heitara með hverju skrefi. Um leið og maður snýr sér við er fölur og munúðarfullur postulínshálsinn hérna inni meira að segja kominn með freknur.
Yfirleitt á samt að vera sáraeinfalt að stilla hita inni í húsum, rétt eins og birtuna. Annað hvort með því að opna glugga eða með því að kveikja á loftkælingunni.
Það er hins vegar ómögulegt að stjórna því hvenær og hvernig maður roðnar. Ljósakrónurnar í innra herberginu eru einhvern veginn alveg þannig. Það virðist vera slökkt á annarri en ljóskenndur og safaríkur vessi er samt byrjaður að vella út með samskeytunum. Þessi ljósakróna er feimin og roðnar án þess að hafa nokkra stjórn á því. Hin er aftur á móti alveg búin að gefast upp. Hún bráðnar þangað til að gólfið undir henni er orðið alveg rennandi blautt. Innst inni er hún búin að sleppa takinu og hefur ekki lengur neitt að óttast. Hún er komin til að vera. Afleiðingarnar láta heldur ekki á sér standa. Gylltur pollurinn bólgnar og bylgjast af stöðugri ánægju. Þetta eru sannkallaðar hitabylgjur.