Fréttatilkynning


 "Það sem þú raunverulega  sást/ What you actually saw"

Laugardaginn 26.október kl 17:00 opnar Erla S. Haraldsdóttir sýningu í
Gallerí Hlemmur. Erla útskrifaðist frá Konsthögskolan Valand í Gautaborg,
1998, og hefur haldið 8 einkasýningar og tekið þátt í mörgum samsýningum,
þá aðallega í Svíþjóð þar sem hún hefur lengi verið búsett. Á árunum 1998 -
2000 rak Erla ásamt listamannahópinum "Swe.de"  Galleri Ynglingagatan í
Stokkhólmi og hefur verið í  stjórn Gallerí Hlemms frá síðustu áramótum.
>
Þetta er í annað sinn sem Erla sýnir í Gallerí Hlemmur, en árið 2001 sýndi
hún þar ásamt Bo Melin tölvubreyttar ljósmyndir af götulífinu í Reykjavík.
Nú sýnir hún myndbandsverk í aðalsýningarrými gallerísins. Myndbandsverkið
er skylt tölvuklippimyndum hennar, en fjalla að þessu sinni ekki um
borgarsamfélagið, heldur samfélag manns og náttúru, einingu sem og
óeiningu. Verkið er að vissu leyti súrrealískt og er það leið listakonunnar
til að höfða til sjónrænnar skynjunar undirmeðvitundarinnar á sama tíma og
er höfðað til hins rökræna veruleika.
Í sýningarskrá hefur hún fengið Joshua Trees (listamaður búsettur í Los
Angeles) til að túlka í orðum eina stillmynd úr myndbandinu, án þess að fá
tækifæri til að sjá myndbandið í heild, einnig hefur hún leitað til ungs
listamanns, Arngríms Borgþórssonar til að gera graffitiíverk á vegg í
galleríinu út frá sömu mynd og á sömu forsendum, og býður þar með upp á
ólíka túlkunarmöguleika annarra á hluta af verkinu, sem hún síðan nýtir sem
 inngrip í sýninguna.
 
Sýningin er opin frá miðvikudegi  til sunnudags frá kl. 14:00-18:00,  og
stendur til 10.nóvember
Vefsíðan er http://galleri.hlemmur.is