“Í garðinum”

 

 

Egill Sæbjörnsson

29.nóv. - 20. des. 2003

 

 Egill Sæbjörnsson opnar sýninguna “Í garðinum” í

Gallerí Hlemmi laugardaginn 29. nóvember kl. 17:00.

 

Þar mun hann sýna myndbands- og tónverk auk ljósmynda og teikninga sem ekki hafa verið sýnd áður. Aðalverkið á sýningunni nefnist “We are flowers” eða “Við erum blóm” og er búið til úr teikningum og tónlist sem sett eru saman í myndbandsverk sem myndar heim mótsagna þar sem fegurð og brútalismi takast á.

Á sýningunni eru einnig teikningar úr verki sem nefnist “Aldan”. Teikningarnar eru að sögn Egils upphaflega vinnuteikningar fyrir tónlistarmyndband en eru hugsaðar sem sjálfstætt verk þar sem myndbandið varð aldrei til.

Á sýningunni eru þar að auki 5 ljósmyndir úr verkinu “1, 3, blár og ellefu” sem er hugsað bæði sem ljósmyndaverk og hreyfimynd (animation). Egill sem er einn borgarlistamanna Reykjavíkur 2004 er búsettur í Berlín en hefur tekið drjúgan þátt í listalífi Reykjavíkur síðustu ár. Fyrr á árinu var hann með einkasýningu í Slunkaríki á Ísafirði og var einnig með einkasýningu tengda dvöl sinni við Visual Research Centre í Dundee Contemporary Arts í Skotlandi. Á árinu hefur hann einnig tekið þátt í nokkrum samsýningum á meginlandi Evrópu og á Norðurlöndunum og tekið þátt í samstarfsverkefnum með öðrum listamönnum bæði á Íslandi og annars staðar. Egill hlaut einnig starfslaun listamanna til ársins 2003 – 2004. Árið 2000 gaf útgáfufyrirtækið Smekkleysa út disk með tónlist eftir Egil sem bar nafnið Egill S v/Muddy Fog – Tonk of the lawn.

 

 

Gallerí Hlemmur er opið fimmtudaga til sunnudaga frá 14 – 18 .

Aðgangur ókeypis.

gallerí Hlemmur – Þverholt 5 – 105 Reykjavík – s: 552-0455

www.hlemmur.is galleri@hlemmur.is