Heilagar stundir

 

Gæðastaðlar iðnaðarins myndu votta auga mannsins sem ófullkomið tæki og mishepnað sköpunarverk í tækniheimi raunhyggjunnar. Frá sjáöldrum glirnunnar varpast birta og skuggi í gegnum víravirki tauga að ljósnemum hugans. Frávarpið er sem sjónvarpsmynd við afar léleg skilyrði. Dreifðir punktar á skjá kalla engu að síður fram hugmyndir, sem í senn eru persónulegar og óræðar, - hlaðnar minningarbrotum úr fortíð og nútíð. Endurtekin hughrif ná tökum á frummyndarlegum tákngervingum sálarinnar. Stolnar stundir göfgast í andmerkingarlegum grunni upplifunar hér og nú.


Í úthverfunum eru þúsundir póstkassa. Að morgni fyllast þeir að skilaboðum brá bönkum, orkuveitum, þjónustufyrirtækjum, lánasjóðum og öðrum sem eiga kröfur á fólk. Í kassana fara einnig dagblöð, tímarit og aulýsingabæklingar sem halda að fólki viðurkenndum frásögnum af veruleikanum. Stigagangar fjölbýlishúsa eru sem einstefnugötur út að morgni,  en inn að kvöldi. Hin félagslegu samskipti fjölskyldna markast af álitsgjöf og umræðum um grátónað litefni ljósvakamiðlanna.

 

Menningarleg vottun þar sem grár hversdagsleikinn er lagður til grundvallar er í senn spennandi og ögrandi viðfangsefni í listsköpun. Of oft fá varnarhættir sjálfs hugans að umhverfa lífi lifandi fólks í samjöfnuð við glys og skraut þess sem menningarsamfélagið vottar sem gilda upplifun. Að skilgreina umgjörð eigin upplifunar í aðkeyptum ramma njörfar niður lífshamingjuna og fangar lífsneistan í neti samanburðar og samkeppni. Sköpun, sem hefur þann tilgang að skera á möskva, hefur því þann tilgang að kryfja persónulegar hugmyndir og tákn og raungera þannig mikilvægi þess venjulega í umhverfi okkar. Upphafningin er þannig holdgering sálarinnar og í raun vísindaleg athugun á lífi venjulegs fólks. Efni almættisins getur ekki umflúið upplifunina og með þá vottun á vörum er ekki annað hægt en að dást að sköpuninni. Heilagar stundir eru dýrmætar.

   

Pálína Aradóttir