“Höfuð okkar eru hringlaga
svo hugsanir okkar geta skipt um stefnu” Picabia.
Ég er að tala í símann við
Heklu Dögg um myndlist, ég í Danmörku og hún heima á Íslandi. Á meðan við tölum saman krassa ég alls kyns pár niður
á blað. Eftir á sest ég niður
fyrir framan tölvuna til að skrifa um verk hennar og miðinn með öllu þessu
handahófskenndu símakroti verður allt í einu við nánari skoðun að
einskonar minnismiða okkar samtals. Krotið
sýnist í fyrstu ósjálfrátt en sjálfsagt byggt á minni persónulegu
reynslu, sem hefur tekið í sig einhver áhrif frá samtali okkar.
Neðst á blaðið hef ég svo
krotað hálfhring fylltum ferhyrningum sem minnir á hefðbundna hleðslu snjóhúsa
og upp úr rýkur reykur. Undir snjóhúsinu
hef ég skrifað “mmmmmmm”. Þessi
emm verða svo að orðinu mandarína. Þar
við hliðina hef ég teiknað konu með brjóst einsog mandarínur og brotið
horn blaðsins yfir svo það hylur konunna.
Hekla gæti líka komið á óvart
og notað eitthvað allt annað en golfbolta, golfgylfu til að slá með og
holu til að hitta. Það myndi
minna á golf en fá annan tilgang, snúast meira um sveifluna en að hitta í
mark. Vegna óvenjulegra áhalda og
óhentugleika efniviðs breytist tilgangurinn.
Hann hættir að snúast um að skjóta sem lengst eða að hitta í mark
heldur einblína á kyrrstöðuna og sveifluna og með því ná enn lengra og
hitta í óráðnar holur.
Erling Þ.V. Klingenberg